STJÓRNARMEÐLIMIR ICA GUARDIANS
HÁKON.
Forstjóri.
Bakgrunnur
Hákon Bragi Magnússon er fæddur árið 1990 og búsettur í Reykjavík.
Bardagabakgrunnur
Hákon hefur iðkað bardagalistir síðan 2013 og er í dag með bakgrunn í Krav Maga, pencak Silat, Kali, Shin Gi Tai kempo og Lethwei, ásamt því að sýna Eskrima vaxandi áhuga.
Námsferill
Hákon sótti þjálfunarbúðir í pencak Silat úti í Indónesíu áður en hann skipti yfir í sjálfsvarnarkerfi Shin Gi Tai kempo. Í dag er hann fullgildur þjálfari í Shin Gi Tai kempo í Belgíu, vottaður af Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson og ber brúnt belti með tveimur strípum. Þá er hann einnig með gult rank í keppnislistinni Lethwei sem samsvarar warrior kennararéttindum frá Leduc Lethwei Academy vottuð af sexfalda heimsmeistaranum Dave Leduc. Ofan á það er Hákon útskrifaður lífvörður af nokkrum námssviðum hjá European Security Academy (ESA) og er tengiliður þeirra hér á Íslandi. Áherslur lokinna námsviða voru meðal annars á aðferðarfræði almennrar öryggisgæslu, á ítarlegt verklag í persónulegri vernd (e. close protection), á skyndihjálpartækni í háskalegum aðstæðum á einstaklingum með lífshættulega áverka, og á vinnulag í sjógæslu (e. maritime security).
Starfsferill
Hákon er einn eigenda ICA Guardians ehf og sinnir skipulagðri þjálfun í sjálfsvörn og Lethwei fjóra daga í viku. Hann býður upp á einstaklingsþjálfun í sjálfsvörn og öryggistækni utan æfinga og hefur haldið þó nokkur námskeið sem sérsniðin eru þörfum ólíkra fyrirtækja. Utan kennslu hefur hann sinnt öryggisgæslu á fjölbreyttum vettvangi, allt frá útköllum, verðmætaflutningum, dyravörslu, viðburðargæslu og farandgæslu, yfir í persónulega lífvörslu gesta (VIPs) sem hafa sótt viðburði hér á landi. Þá hefur hann skipulagt þrjú stór lífvarðaverkefni á Íslandi og tryggt heimsfrægum gestum persónulega vernd yfir dvöl þeirra hér.
SIGURGEIR.
Framkvæmdastjóri.
Bakgrunnur
Sigurgeir Svanbergsson er fæddur árið 1990 og búsettur á Eskifirði.
Bardagabakgrunnur
Sigurgeir sýndi brennandi áhuga á bardagalistum strax í bernsku og stundaði japanskar bardagalistir yfir sex ára tímabil á unglingsárunum. Síðar fór hann að iðka Krav Maga, pencak Silat, Kali, Shin Gi Tai kempo og Lethwei. Í dag er hann með hvað mesta sérhæfingu í Lethwei og er helsti tengiliður félagsins við starfsemi erlendis sem heldur keppnir og mót í Lethwei.
Námsferill
Sigurgeir fór í þjálfunarbúðir í pencak Silat úti í Indónesíu en skipti svo yfir í Shin Gi Tai kempo. Sigurgeir er vottaður þjálfari í Shin Gi Tai kempo í Belgíu undir Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson og ber brúnt belti með einni strípu. Auk þess er hann fyrsti þjálfarinn í heiminum til að öðlast grænt rank í Lethwei sem samsvarar python – advanced kennararéttindum frá Leduc Lethwei Academy vottuð af sexfalda heimsmeistaranum í Lethwei, Dave Leduc. Til viðbótar er Sigurgeir svo útskrifaður einkaþjálfari frá fyrirtæki Jon Andersen, Deepwater, og ber í dag titilinn Deepwater Method Certified Coach. Í dag vinnur hann að því að útskrifast úr slökkviliðsnámi og stefnir á að verða slökkviliðsmaður í hlutastarfi.
Afrek
Í námi Deepwater hlaut Sigurgeir góða þjálfun í að mæta ólíkum þörfum einstaklinga m.a. með því að læra að sníða matar- og æfingarplön af opnum hug. Mesta þjálfun fékk hann þó í að vinna með samband hugarfars og seiglu við markmiðasetningu og langtíma árangur hjá skjólstæðingum sínum. Þessa þekkingu hefur hann bæði hagnýtt til þess að undirbúa iðkendur Iceland Combat Arts andlega undir Lethwei keppnir erlendis, og til að undirbúa sjálfan sig fyrir persónuleg afrek.
Eftir að hafa útskrifast úr námi Deepwater, ákvað Sigurgeir að sannreyna visku Jon Andersen og kortlagði eina stærstu áskorun sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Árið 2021 synti hann 11.6 km þvert yfir Kollafjörð í ísköldum sjó, án þess að vera með nokkurn bakgrunn í sundi, hvað þá sjósundi. Þrátt fyrir bilaðan fylgdarbát, marglittur og óútreiknanlega hafstrauma, lauk Sigurgeir þessari þrekraun sinni á rúmum 9 klukkustundum. Allur ágóði verkefnisins rann til styrktar samtakanna Einstök börn. Sigurgeir lét ekki gott heita þar, heldur endurtók leikinn árið 2022 og synti 12.2 km sjóleið frá Vestmannaeyjum til Landeyjarsanda á rúmum 6 klukkustundum. Samtökin Barnaheill nutu góðs af ágóða sundsins.
Árið 2023 synti Sigurgeir svo Grettissundið í óhagstæðum straumum innan um þykkt marglittuger. Venjulega samsvarar Grettissundið um 7 km sjóleið en vegna sterkra hafstrauma endaði Sigurgeir á því að synda 10 km á 4.5 klukkustundum í 6-8°C heitum sjó. Þrátt fyrir að þetta síðasta sund hafi tekið mjög á Sigurgeir, er hann hvergi hættur og hefur sett sér Ermasundið sem langtíma markmið.
Starfsferill
Sigurgeir er einn eigenda ICA Guardians ehf sem og einn þeirra sem stofnaði anga ICA félagsins á Reyðarfirði og kom á fót æfingaraðstöðu þar. Hann sinnir tveimur skipulögðum æfingum þar í viku og tryggir félagsmeðlimum þess fyrir utan sólarhrings aðgangi að æfingarhúsnæði. Til viðbótar býður Sigurgeir upp á almenna einkaþjálfun, einkatíma í bardagaþjálfun og fyrirtækjanámskeið. Þá eru Sigurgeir og Einar þeir fyrstu til þess að halda barnanámskeið á vegum félagsins fyrir austan. Fyrir utan þjálfunarstörf hefur Sigurgeir tekið að sér almenna öryggisgæslu, viðburðargæslu og dyravörslu. Hann hefur einnig unnið sem persónulegur lífvörður undir handleiðslu Hákons, og gætt frægra einstaklinga sem sótt hafa íslenska viðburði, en Sigurgeir aðstoðaði einmitt við skipulag á þremur stærstu lífvarðarverkefnum í sögu félagsins hér á landi.
EINAR.
Rekstrarstjóri.
Bakgrunnur
Einar Hafþór Heiðarsson er fæddur 1983 og búsettur á Eskifirði.
Bardagabakgrunnur
Einar hefur iðkað bardagalistir frá 2016, fyrst sjálfsvörn byggða á bardagakerfum Krav Maga, pencak Silat, Kali og Shin Gi Tai kempo, og síðar meir keppnislistina Lethwei.
Nám – og starfsferill
Einar er einn eigenda ICA Guardians ehf með vottuð þjálfunarréttindi í Shin Gi Tai kempo í Belgíu frá Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson og ber grænt belti. Til viðbótar hefur hann unnið sér inn hvítt rank með tveimur stjörnum frá Leduc Lethwei Academy vottað af sexfalda heimsmeistaranum Dave Leduc. Þá er Einar einn þeirra sem stofnaði anga ICA félagsins á Reyðarfirði og kom á fót æfingaraðstöðu þar. Hann þjálfar og leiðbeinir iðkendum á tveimur æfingum vikulega. Utan æfinga hefur hann starfað sem slökkviliðsmaður í hlutastarfi eftir útskrift sína úr sjúkraflutningum, sem brunavörður og sem verkefnastjóri í öryggisgæslu. Í dag starfar hann sem öryggisfulltrúi í stóru iðnfyrirtæki. Einar hefur verið mikilvægur hlekkur í framþróun fyrirtækisins, m.a. fyrir lífvarðarstörf sín undir handleiðslu Hákons, en líka fyrir að kynna starfsemi ICA Guardians í fyrirtækjum og kortleggja mismunandi þjónustuleiðir sem standa viðskiptavinum til boða. Þá tók Einar þátt í að skipuleggja fyrstu barnanámskeið félagsins.
VIKING.
Verkefnastjóri.
Bakgrunnur
Víking Magnússon er fæddur árið 1994 á Íslandi og búsettur í Danmörku.
Bardagabakgrunnur
Víking hefur lagt stund á bardagalistirnar Krav Maga, pencak Silat og Shin Gi Tai kempo og Brazilian jiu-jitsu. Seinna hóf hann þjálfun í hand-to-hand combat í danska hernum.
Nám – og starfsferill
Víking ber appelsínugult belti í Shin Gi Tai kempo undir vottun Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson frá Shin Gi Tai kempo – Belgian Organization. Hann útskrifaðist sem vélvirki á Íslandi og flutti svo árið 2017 til Danmerkur eftir að hafa fengið inngöngu í danska herinn. Fljótlega hóf hann störf sem Private í konunglega lífverðinum og stóð vaktir fyrir dönsku drottninguna og fjölskyldumeðlimi hennar. Víking var fljótur að bæta við sig 7 mánaða námi í Sergeant-skóla innan hersins og útskrifaðist sem konunglegur lífvörður. Hann hóf að þjálfa inn nýliða fyrir lífvörslu drottningarinnar og tók við yfirmannastöðu sem m.a. fól í sér að raða konunglegum lífvörðum niður á vaktir. Árið 2020 fékk Víking svo nýja stöðu sem Ambulance Comander í Aalborg og fékk stuttu síðar titilinn Field Hospital Commander (R1). Tveimur árum seinna var Víking sendur í 6 mánaða leiðangur til Eistlands sem yfirmaður sjúkrateymis (e. Head of the Danish Medical Team). Í dag starfar Víking sem 2IC (Second-in-command)(Staff Sergeant) og sér um sjúkraþjálfun (e. medical training) danskra hernýliða.
ÞÓRUNN.
Skipulagsstjóri
Bardagabakgrunnur
Þórunn hefur iðkað sjálfsvarnarlistir frá árinu 2015 á borð við Krav Maga, pencak Silat, Kali og Shin Gi Tai kempo. Seinna hóf hún þjálfun í keppnislistinni Lethwei.
Námsferill
Þórunn sótti þjálfunarbúðir í pencak Silat úti í Indónesíu áður en hún skipti yfir í sjálfsvarnarkerfi Shin Gi Tai kempo. Í dag er hún vottuð sem aðstoðarþjálfari með græna beltið í Shin Gi Tai kempo í Belgíu frá Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson. Þar fyrir utan er Þórunn með björgunarsveitabakgrunn frá unglingadeild Ársæls og hefur bæði í gegnum björgunarsveitina sem og spítalastörf, lokið þremur námskeiðum í skyndihjálp. Í dag er hún útskrifuð með meistaragráðu í sálfræði og hefur meðal annars lokið námskeiðum í afbrotafræði, réttarsálfræði og í alþjóðlegum öryggismálum (e. international security).
Starfsferill
Þórunn hefur tekið þátt í viðburðargæslu í öllum verkefnum ICA Guardians frá upphafi og sinnt hópstjórastöðu í þriðja stærsta öryggisverkefni fyrirtækisins. Eftir að hafa verið samþykkt sem aðstoðarþjálfari í Shin Gi Tai kempo, hefur hún leiðbeint á sjálfsvarnar – og öryggisgæslunámskeiðum sem haldin hafa verið fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
ÁSGEIR.
Starfsmannastjóri.
Bakgrunnur
Ásgeir er fæddur árið 1997 og búsettur í Reykjavík.
Bardagabakgrunnur
Ásgeir hefur iðkað bardagalistir í að verða 10 ár og helst lagt stund á Wushu, Taekwondo, Krav Maga, pencak Silat, Kali, Shin Gi Tai kempo og Lethwei. Líkt og Hákon, hefur Ásgeir einnig verið að kynna sér bardagakerfi Eskrima.
Nám- og starfsferill
Ásgeir sótti þjálfunarbúðir í pencak Silat úti í Indónesíu áður en skipti svo í Shin Gi Tai kempo og er í dag vottaður aðstoðarþjálfari með græna beltið í Shin Gi Tai kempo í Belgíu frá Grand Master sijo Daniel Hayen og Mel Halidesson. Til viðbótar hefur hann unnið sér inn hvítt rank með tveimur stjörnum frá Leduc Lethwei Academy vottað af sexfalda heimsmeistaranum Dave Leduc. Ásgeir hefur verið starfandi dyravörður síðan 2018 en vinnur þess utan við vettvangsgæslu, viðburðargæslu og farandgæslu. Ásgeir hefur verið vaktstjóri öryggisgæslunnar í öllum verkefnum ICA Guardians frá upphafi og leiðbeint á sjálfsvarnar – og öryggisgæslunámskeiðum sem ICA Guardians ehf hefur haldið fyrir einstaklinga og fyrirtæki.